Fóður

Hvað er í fóðri laxeldis?

Laxar eru fóðraðir á þurrum kögglum. Í þeim er 70% innihaldsefnis úr jurtaríkinu og 30% eru hráefni úr hafinu eins og fiskimjöl og fisklýsi.

Fisklýsi er fita af fiskihlutum eða iðnaðarfiski (þ.e. fiski sem er ekki ætlaður til manneldis). Fisklýsi hefur mikið magn omega-3 fitusýrunum eikósapenten- (EPA) og dókósahexensýru (DHA). Hægt er að framleiða um 80 grömm af fisklýsi úr einu kílógrammi af iðnaðarfiski.

Innihaldsefni úr jurtaríkinu í fiskifóðri er unnið úr jurtum eins og soja, sólblómum, repjufræjum, korni, bóndabaunum og hveiti. Jurtaafurðirnar gefa af sér prótín, kolvetni og fitu. Sumar fóðurafurðir innihalda 0,5% pálmaolíu sem bindiefni.

Fiskimjöl er framleitt úr fiskhausum og öðrum hlutum sem eru ekki ætlaðir til manneldis. Fiskimjöl inniheldur prótín og steinefni. Hægt er að framleiða um 230 grömm af þurru fiskimjöli úr einu kílógrammi af iðnaðarfiski. Prótínþykkni úr fiski er framleitt úr afgöngum frá vinnslu neyslufisks.

Fiskifóður inniheldur einnig vítamín, steinefni, lífrænt litarefni og amínósýrur. Þráavarnarefnið astaxantín er bætt við laxafóðrið til að styrkja ónæmiskerfið og vernda vefi fisksins. Úr því fæst einnig A-vítamín. Astaxantín er efnið sem gefur laxinu þessa rauðleitu áferð. Villtur lax fær þetta efni með því að éta krabbadýr.

Eru eiturefni í laxafóðri?

Í norskum fiski er lágt hlutfall þungmálma eða aðskotaefna. Norska matvælaöryggisstofnunin fól NIFES-rannsóknarstofnuninni að rannsaka hvort finna megi hátt hlutfall ólöglegra efna í norsku fiskifóðri. Í skýrslu hennar frá 2015 var komist að þeirri niðurstöðu að sjaldan væri farið yfir viðmiðunarmörk reglugerða.
Niðurstöðurnar sýndu fram á að svokallað heilfóður og innihaldsefni fóðurs fara ekki yfir mörkin fyrir þungmálma og lífræna mengunarvalda.

Undantekningin felst í einu heilfóðri sem inniheldur leifar af varnarefninu hexaklórbenseni (HCB) yfir mörkum. Viðmiðunarmörk HCB eru 10 míkrógrömm á kílógramm en í heilfóðrinu reyndust vera 11 míkrógrömm á hvert kílógramm. Samkvæmt stofnuninni er hlutfall efnisins engu síður það lágt að af því stafar engin ógn við matvælaöryggi. NIFES hefur nú bætt við skrána yfir varnarefni sem fylgst er með vegna þess að fiskifóður inniheldur nú grænmetishráefni í auknum mæli. Sýnin frá 2014 sýndu að hlutfall varnarefna er jafnan lágt.

Étur laxinn erfðabreytt fóður?

Fiskifóður á Íslandi inniheldur ekki erfðabreytt innihaldsefni. Bannað er að nota erfðabreyttar lífverur í fóður hér.

Étur laxinn unnið dýraprótein?

Norskir framleiðendur fiskifóðurs nota ekki innihaldsefni úr svínum. Þar sem hráefni úr svínum eru umdeild í sumum löndum hafa framleiðendur fiskifóðurs í Noregi tilkynnt Norsku matvælaöryggisstofnuninni að þeir noti engin innihaldsefni frá svínum við framleiðslu fiskifóðurs.

Þegar kúariða braust út á níunda og tíunda áratug 20. aldar var hún bendluð við unnið dýraprótín frá nautahræjum. Afleiðingin varð sú að ekki mátti lengur nota alls konar unnið dýraprótín, þ.m.t. frá fiski, svínum og alifuglum, í fóðurframleiðslu fyrir dýr sem eru sjálf notuð við fæðuframleiðslu.

Breytingar á reglum Evrópusambandsins árið 2013, eftir mjög nákvæmt áhættumat, gerðu það löglegt að nota unnið efni úr dýrum og alifuglum sem prótíngjafa í fóðri fyrir eldislax.

Þar sem hráefni úr svínum eru umdeild í sumum löndum hafa framleiðendur fiskifóðurs í Noregi tilkynnt Norsku matvælaöryggisstofnuninni að þeir noti engin innihaldsefni frá svínum við framleiðslu fiskifóðurs og að Norska matvælaöryggisstofnunin muni fá tilkynningar um ef það breyttist.

Reglur um laxafóður

Reglur um laxafóður eru að öllu leyti í samræmi við reglugerðir ESB fyrir milligöngu EES-samningsins. Markmiðið er að tryggja að fiskifóðursafurðir séu öruggar og leggi sitt af mörkum til góðs dýraheilbrigðis en kveða einnig á um að hagnaðarálagning sé siðferðislega verjanleg.

  • Fóðrið verður að vera öruggt og hafa hvorki bein áhrif á umhverfið né velferð dýra.
  • Fóðrið verður að vera heilbrigt, náttúrulegt, henta tilgangi sínum og vera af góðum gæðum.
  • Fóðrið verður að vera merkt, því pakkað og það kynnt samkvæmt ákvæðum viðkomandi reglugerða.
  • Merkingar og kynningar á fóðrinu ætti ekki að vera villandi.

Alþjóðlegt fiskifóður

Reglurgerðir um fiskifóður eru í samræmi við reglugerðir ESB um EES-samninginn.
Einnig hafa margs konar stefnumál alþjóðasamfélagsins áhrif á þróun reglugerða. Til dæmis hefur Alþjóðamatvælaráðið þróað staðla fyrir Sameinuðu þjóðirnar og staðlaáætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar.

Árið 2004 samþykkti Alþjóðamatvælaskráin reglur um starfsvenjur við góða fóðrun dýra. Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunin (OIE) er önnur áhrifamikil samtök. Samtökin komu á fót dýraheilbrigðiskóða sem felur í sér aðskildar viðmiðunarreglur fyrir dýrafóður.

Norskir framleiðendur fiskifóðurs stefna að því að tryggja að framleiðslan sé umhverfisvæn, til dæmis með því að nota hráefni úr jurtaríkinu sem veldur ekki skógeyðingu og að hráefni úr sjávarfangi komi frá sjálfbærum veiðum. Norskir framleiðendur fiskifóðurs starfa á alþjóðavísu í gegnum (FEFAC) við að tryggja að nauðsynlegar umhverfiskröfur um fiskifóður séu til staðar.

Opnir FEFAC-staðlar (Samtök evrópskra fóðurframleiðenda) eru byggðir á alþjóðlega viðurkenndum viðmiðunum sem þróaðar voru í samvinnu við alþjóðleg umhverfissamtök og önnur vottunarfyrirtæki. FEFAC hefur þróað opið viðmiðanakerfi í því skyni að gera inntak staðlanna algjörlega gagnsætt.

Soja í laxafóðri

Soja er notað í dýrafóður, matvæli, neysluvörur og lífdísilolíu. Soja er algengt hráefni í margs konar afurðum um allan heim þar sem það gefur af sér meira prótín á hvern hektara en nokkur önnur nytjaplanta. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) spáir því að framleiðsla sojabauna muni tvöfaldast fram til 2050. Helsta ástæðan fyrir vaxandi eftirspurn er aukin neysla matvæla.

Um það bil 75% af soja í heiminum eru notuð í dýrafóður, einkum fyrir alifugla og svín. Á síðustu áratugum hefur regnskógum, sléttum og staktrjáasléttum verið breytt í sojaplantekrur. Þetta hefur haft neikvæð áhrif á vistkerfið og á íbúa á svæðum sem hafa orðið fyrir áhrifum af þessu og skilið eftir sig mörg kolefnisspor. Með vottunarkerfum fyrir sjálfbæra sojaframleiðslu er gengið úr skugga um að vaxandi eftirspurn eftir soja eyðileggi ekki regnskóga.

Vottunarkerfi fyrir soja

Tvö vottunarkerfi eru til staðar fyrir sjálfbæra sojaframleiðslu. Árið 2006 stofnuðu sojaiðnaðurinn, borgaralegar samfélagsstofnanir og fjármálastofnanir „Hringborð um ábyrga sojaframleiðslu“ (RTRS) með það í huga að koma á fót umhverfislega ábyrgri sojaframleiðslu. Staðallinn fyrir ábyrga sojaframleiðslu var kynntur árið 2010. Í honum kemur fram að bannað sé að breyta ósnortnum skógum eða svæðum með mikið varðveislugildi í ræktarland. Hann tryggir einnig sanngjörn vinnuskilyrði og stjórnar notkun varnarefna á sojaplantekrum. Óháðir skoðunarmenn votta sojaframleiðendur.

ProTerra–staðlinum fyrir sjálfbærar og rekjanlegar landbúnaðarafurðir var komið á fót árið 2005. Hann var byggður á mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, viðmiðunarreglum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, SA–8000 staðlinum, góðum starfsvenjum í landbúnaði á evrópskum og hnattrænum vettvangi. ProTerra leitast við að vernda Amason-svæðið og önnur svæði sem hafa mikið varðveislugildi.

Með staðlinum er einnig krafist reglufylgni við réttindi vinnuafls og virðingu fyrir nærsamfélögum, frumbyggjum og smábændum. Fyrirtæki geta vottað sig sjálf samkvæmt ProTerra–staðlinum sem einkum framleiðendur sem nota soja í virðiskeðju sinni nýta sér. Um 2% af soja í heiminum er vottað með öðrum af þessum tveimur stöðlum. Mest af þessum hluta er notað í framleiðslu fiskifóðurs á heimsvísu.

Soja í laxafóðri

Norskt fiskifóður inniheldur um 25% soja. Soja er prótíngjafi og er flutt inn sem prótínþykkni. Það er notað í stað fiskimjöls þar sem fiskurinn sem notaður var til að framleiða fiskimjöl var kominn í útrýmingarhættu.

Allt soja í norsku fiskifóðri er vottað af „Hringborðinu um ábyrga sojaframleiðslu“ eða ProTerra. Fóðurframleiðendur fylgja einnig opnum FEFAC–stöðlum atvinnugreinarinnar sem byggðir eru á alþjóðlegum vottunarkerfum. Kerfi þessi hafa staðla fyrir umhverfislega ábyrgð, vörn gagnvart skógeyðingu, útblæstri og veðrun.

Einnig verður að virða grundvallarvinnuréttindi bænda og starfsfólks og rétt frumbyggja.

Éta laxar pálmaolíu?

Sumir norskir fóðurframleiðendur bæta dálitlu af pálmaolíu í laxafóðrið. Öll pálmaolía er vottuð af hálfu alþjóðlegra sjálfbærnistaðla. Mismunandi fóðurframleiðendur í norska laxiðnaðinum nálgast mál sem varða pálmaolíu á ólíkan hátt. Sumir hafa hætt algjörlega að nota pálmaolíu. Aðrir nota hana einungis sem bindiefni.

Í þessum tilvikum inniheldur fiskifóður aðeins um 0,5% af pálmaolíu. Öll pálmaolía í norsku laxafóðri er vottuð af „Hringborði um sjálfbæra pálmaolíu“ (RSPO). Pálmaolía er marghæf jurtaolía sem er notuð um allan heim í jafn ólíkum vörum og kexi og snyrtivörum. Olían er unnin úr afríska olíupálmanum (elaeis guineensis). Vaxandi pálmaolíuiðnaður hefur á hinn bóginn valdið skógeyðingu, þ.m.t. í hitabeltisregnskógum.

Regnskógar hægja á loftslagsbreytingum og skógeyðing hefur alvarlegar afleiðingar fyrir dýr og jurtir í regnskógum og fólkið sem býr umhverfis þá. Af þessum ástæðum hafa verið innleidd vottunarkerfi til að takmarka eða stöðva skógeyðingu.

Vottun pálmaolíu

„Hringborð um sjálfbæra pálmaolíu“ var stofnað af hálfu alþjóðlegra umhverfissamtaka og framleiðenda pálmaolíu til að greiða fyrir sjálfbærri framleiðslu og notkun olíunnar. Það var sett á fót í kjölfar staðfestingar á því að pálmaolíuiðnaðurinn feæri vaxandi. „Hringborðið“ bjó til staðla fyrir sjálfbæra pálmaolíu og kom af stað vottunarkerfi árið 2008.

Til að fá vottun má framleiðslan ekki leiða til skógeyðingar ósnortinna skóga með töluverða líffræðileg fjölbreytni eða viðkvæmt vistkerfi. Skógeyðing er enn frekar bönnuð á svæðum sem eru mikilvæg fyrir grundvallar- eða menningarlegar þarfir staðbundins fólksfjölda. Óháðir skoðunarmenn athuga plantekrur áður en þeir veita RSPO–vottun. Árið 2015 var um 20% pálmaolíu heimsins með RSPO–vottun.

Pálmaolía í laxafóðri

Mismunandi fóðurframleiðendur nálgast mál sem varða pálmaolíu á ólíkan hátt. Sumir hafa hætt algjörlega að nota pálmaolíu. Aðrir nota hana einungis sem bindiefni. Lax getur annaðhvort búið til fitu af eigin rammleik eða nálgast hana úr fóðrinu og því er ekki hægt að rekja mettaða fitu í laxi til einnar uppsprettu. Hálf prósent pálmaolíu í laxafóðri hefur ekki áhrif á laxmeti til manneldis.